Saga Jesú

Fletta á kafla I II III IV V VI VII

I
Um engan mann á þessari jörð mun eins mikið hafa ritað verið og talað og Jesú frá Nasaret, sem nú oftast er kallaður Kristur. En þó var þessi mikli spámaður ekki frægari en það, um sína daga, að hinir lærðustu menn hafa haldið því fram, að hann sé hvergi nefndur á nafn í fornum bókum, fyrr en þau rit koma til sögunnar, sem nú eru nefnd Nýja Testa­mentið. Og því hefir jafnvel verið haldið fram, að Jesús hafi aldrei verið til, og guðspjöllin því ekki annað en skáldskap­ur. En slíkt nær þó engri átt. Guðspjallasagan ber það greinilega með sér, að þar er af manni sagt sem til hefir verið; og eins, að meira er satt í því sem þar hefir einkum ótrúlegt þótt, heldur en jafnvel ýmsir háskólakennarar í kristnum fræðum hafa á síðari tímum ímyndað sér.
Það er býsna fróðlegt að virða fyrir sér sögu Jesú í ljósi nýrra vísinda og nýrrar heimspeki sem gerir oss auðveldara um en áður var, að ráða í hvað sannast muni vera og réttast í því sem af honum er sagt. Og jafnframt verður oss þá ljós­ara en áður, hverjum guðspjallamanninum vér best getum treyst. Eru Matteus og Markús bersýnilega meiri sögumenn en hinir; Lúkas er einkum skáldið og Jóhannes heimspek­ingurinn.

II
Nokkra birtu yfir eðli Jesú leggur frá hinni grísku sköp­unarsögu, eins og hún er sögð í Timaios Platóns. Hinn hæsti höfuðsmiður skipti heimssálinni niður á stjörnurnar, og skapaði þannig guði sem voru ódauðlegir og furðulega fullkomnir, þó að þeir væru honum sjálfum ófullkomnari. Og þessum guðum fól hann svo að skapa á enn öðrum stjörnum — eins og kemur fram í merkilegum orðum Pyþa­gorasar sem ég hefi ástæðu til að halda að ég hafi orðið fyrstur til að vekja eftirtekt á — hið óæðra, ófullkomnara líf, sem er dauðanum undirorpið. Og þó að kenningin sé nokkuð óljós, þá má samt lesa út úr því sem í Timaios segir, að tilgangur lífsins er að ná fram til fullkomnunar með því að sigrast á þeim erfiðleikum sem efnið skapar því. Í samband við þessa sköpunarsögu, verðum vér svo að setja hina grísku trú á daimóninn, fylgi- og verndarveru manns­ins, sem stundum gat verið svo háleitrar náttúru, að hún væri réttnefnd guð. Og eins og ég hefi vikið á annars staðar, gægist einnig í sambandi við daimóninn fram sá sannleikur, að hann eigi heima á annarri stjörnu. Vanalega virðist daimóninum erfitt að ná því sambandi við manninn sem nauðsynlegt er til að geta verndað hann og komið honum á fullkomnunarleið; en auðnist manninum að sjá hann, þá finnst honum sem hann sjái sjálfan sig, aðeins óumræðilega miklu fegri og fullkomnari orðinn. Að svo hafi verið um hinn ágæta heimspeking Plótínus má, eins og ég hefi getið um í ritgerðinni hér á undan, ráða af hans eigin orðum. Og slík hefir mín eigin reynsla verið, og hefir hún verið mér óumræðilega mikils virði, þó að þetta hafi aðeins í eitt skipti fyrir mig komið, þar sem hún varð mér hin ómissandi hjálp til að átta mig á þessu meginatriði tilveru vorrar.

III
Jesús var nú öðrum mönnum ólíkur í því, að samband hans við verndarvætt sína, sem hann nefnir föðurinn, er svo fullkomið, að hann öðlast hæfileika, sem hjá öðrum mönn­um eru annaðhvort ekki til, svo að á beri, eða þá aðeins á miklu lægra stigi. Ein afleiðing þessa nána sambands, er að Jesús getur gert kraftaverk, (á grísku dynameis, flt. orðsins dynamis, máttur; framkvæmdir máttarins.) En eðli máttar­verkanna verður oss ljósara, þegar vér gætum þess, að lífið sjálft er nokkurskonar hleðsla, fram komið fyrir magnan efnisins. En Jesús varð slíkrar magnanar aðnjótandi öðrum fremur, sakir hins nána sambands við „föðurinn”. Þó kemur einnig í guðspjallasögunni greinilega fram, að þetta samband var háð stillilögmálinu. Það var fullkomnast, hæfileiki Jesú til að gera kraftaverk mestur, þegar mann­fjöldi „trúði á hann”; en hæfileikinn hverfur að mestu þegar Jesús mætir vantrausti og litilsvirðingu. „Kraftur drottins var með honum til að lækna,” segir Lúkas (5, 13) og enn­fremur: „kraftur gekk út frá honum sem læknaði” (6, 18). En það gat komið fyrir, að þessi „kraftur Drottins” væri aðeins lítillega með honum. Jesús kemur til Nasaret, borgar­innar þar sem hann var upp vaxinn, „og ekki gat hann gjört þar neitt kraftaverk“. Þeir „hneyksluðust á honum” og sögðu: „Er hann ekki smiðurinn sonur Maríu og bróðir Jakobs og Jóse og Júdasar og Símonar? og eru ekki systur hans hér hjá oss?” (Markús, 6. kap.). En Mattheus segir, (13. kap.): „Og hann gjörði þar ekki mörg kraftaverk vegna vantrúar þeirra.”
Þegar vér leggjum saman það sem líklegast er í frásögn þessara tveggja guðspjallamanna, þá verður niðurstaðan sú, að Jesús gat ekki gert nein kraftaverk í bænum þar sem fólkið þekkti hann frá barnæsku, af því að þar var hann lítilsvirtur. Vér fáum jafnvel að vita, að ekki einu sinni bræður hans hafi trúað á hann. Það var einmitt vegna þessa vantrausts á Jesú þarna í Nasaret, sem sambandið við „föð­urinn” og sú magnan sem því fylgdi, gat ekki komist á það stig, sem nauðsynlegt var til þess að honum gæti þar tekist að gera kraftaverk.
Einnig Lúkas segir (4. kap.) frá þessari komu Jesú til Nasaret; en þetta svo mjög eftirtektarverða við dvöl hans þar, sem Mattheus og Markús segja frá, hefir farið fram hjá Lúkasi og kemur aðeins óbeinlínis fram í þessum orðum Jesú: „Vissulega munuð þér segja við mig málshátt þennan: læknir lækna sjálfan þig; gjör einnig hér í föðurborg þinni allt það sem vér höfum heyrt að gjörst hafi í Kapernaum.”
Hjá Jóhannesi finnum vér í 7. kap. nokkrar minjar þess­arar komu Jesú til Nasaret, í orðunum: „Því að Jesús vitnaði sjálfur, að spámaður væri ekki metinn í föðurlandi sínu” (Réttari þýðing væri: föðurborg og þó öllu heldur heima­borg).

IV
Virðum svo hinsvegar fyrir oss hvað því fylgir að fólkið trúir á hinn mikla spámann. Aldrei hafði Jesús hrifið fjöld­ann til trausts og aðdáunar eins og þegar hann gat komið því til leiðar, að þúsundir fengu nægju sína, þó að ekki hefði verið til þar á staðnum meir en málsverður fáeinum mönn­um. Og eftir þetta magnast hann svo, að hann gengur á vatn­inu. Líklegra þykir mér þó að hann hafi svifið með yfirborði vatnsins, líkt og Hómer segir að guðinn Hermes geri. Og höfum vér raunar öll úr svefni nokkra hugmynd um það, hvernig er að líða þannig yfir jörðina og þannig tilkomna, að vér höfum fengið fyrir draumgjafa einhvern sem er að byrja að geta flutt sig staða á milli á þennan skemmtilega hátt.
Og til svipaðra stilliáhrifa verður að rekja undursamleg­asta atburðinn sem af er sagt í guðspjöllunum. Jesús hafði aftur gert það kraftaverk sem best var fallið til að ávinna honum traust og aðdáun fjöldans, mettað þúsundir á mat sem enginn vissi af þar á staðnum áður til skyldi taka. Og nokkru síðar tekur hann með sér upp á hátt fjall þrjá af lærisveinum sínum, sennilega þá sem best voru fallnir til að stuðla að því að hinn undursamlegi atburður gæti orðið. Og hann ummyndaðist að þeim ásjáandi; ásjóna hans breyttist og varð skínandi sem sólin og jafnvel klæði hans urðu skín­andi hvít; og hjá honum sáust tvær lýsandi verur sem læri­sveinarnir hugðu vera hina frægu fyrirrennara spámannsins, Móses og Elía. Ég sé ekki neina ástæðu til að efast um að atburður þessi hafi átt sér stað, jafnvel þó að furðu nokkurri gegni, að Jóhannesarguðspjallið getur ekki um hann. En atburðurinn er í besta samræmi við allt eðli Jesú og fram­komu, eins og guðspjöllin lýsa þessu. Þarna var hámarkið. Jesús ummyndaðist þarna fyrir áhrif frá komumönnunum, og verður líkari en áður fullkomnari íbúum annarrar stjörnu og þá líklega einmitt þeirrar sem hann kallaði guðs ríki, og þar sem „faðir” hans var konungur. Því að þarna var um að ræða heimsókn frá annarri stjörnu, fyrirboða þess sem þarf að geta orðið algengur hátíðaviðburður á vorri jörð, ef tak­ast á að bjarga mannkyninu frá glötun.

V
Það er ekki ólíklegt að eftir þessa samfundi við meðlimi fullkomnara mannfélags hafi það verið, sem fór í vöxt hjá Jesú ýmislegt undarlegt tal, sem loks leiddi til þess að flestir lærisveinar hans héldu, að hann væri orðinn brjálaður og yfirgáfu hann. En vér getum vel skilið að hverju þetta tal miðar. Það er undanfari þess skilnings sem mun verða eign alþjóðar þegar sambandið við hina fullkomnari íbúa ann­arra stjarna er komið í það horf sem vera þarf, skilningsins á tilgangi lífsins. En að vísu kom þetta svo undarlega og óljóslega fram, að mönnum er varla láandi þó að þeir héldu, að hann hefði óráð. Undarlegustu orð hans eru þessi: „Ef þér ekki etið hold mannsins sonar og drekkið blóð hans, hafið þér ekki líf í yður.” Og: „Sá sem etur hold mitt og drekkur blóð mitt, sá er í mér og ég í honum.” Og ennfrem­ur má telja þessi orð hans: „Ég er brauð lífsins, ég er hið lif­andi brauð, sem kom niður af himni; ef nokkur etur af þessu brauði, mun hann lifa til eilífðar; og það brauð sem ég mun gefa, er hold mitt, heiminum til lífs.”
Orð þessi lúta að því að Jesús var nokkurskonar tengiliður við æðra tilverustig og til þess að geta fengið samband við það urðu menn að fá þátt í þeim krafti, sem geislaði út frá honum. Og að vísu var sá kraftur náskyldur þeim sem af líf­lausum efnum gerir efni brauðs, og síðan hold og blóð. Það er af því að Jesús er magnaður af þessum krafti, sem hann getur sagt: „Ég hefi fæðu að eta sem þér vitið ekki af”; og getur þó verið, að einnig á annan hátt komi þar til greina hið merkilega sambandsástand hans. En jafnvel þó að magnan­in frá hinni æðri veru, „föðurnum” væri svo mikil að kraft­urinn, sem „gekk út” frá. Jesú, gat komið í rétt lag því sem aflaga fór í öðrum líkömum og jafnvel tendrað lífið aftur þar sem það var kulnað út, þá dugði þetta samband honum ekki til þess, að hann gæti á skiljanlegan hátt frætt læri­sveina sína um það sem mestu varðar að vita. Og sjálfur virðist hann hafa fundið, að kenning hans var ófullkomin, og þess vegna talar hann við lærisveinana um anda sannleik­ans, sem koma muni og leiða þá „inn í allan sannleikann”; og má að vísu líta á slík orð hans sem spá fyrir því, að vísindi muni koma í trúar stað, um lífið eftir dauðann og tilgang lífsins. Og segja má, að með framkomu Swedenborgs hafi spá þessi ræst að nokkru leyti; því að kenning hins sænska spekings um lífið eftir dauðann tekur langt fram þeirri fræðslu, sem guðspjöllin veita okkur um það efni. En sem kraftaverkamaður stóð Swedenborg Jesú langt að baki, enda ástæður til slíks miklu verri í Svíþjóð en í Jórsalalandi.

VI
Það er eitt sem glögglega bendir til þess, að þeir hafi ekki rétt fyrir sér, sem halda því fram, að saga Jesú sé skáldskap­ur einn, að guðspjallamennirnir gera ekki nokkra tilraun til að dylja að Jesús var um suman ófullkomleika, ekki alveg ólíkur öðrum mönnum. Maðurinn sem sagði: „Elskið óvini yðar, blessið þá sem yður bölva” var svo illorður um mót­stöðumenn sína, að hann kallaði þá nöðruafkvæmi. Og fíkjutré sem hann fann engar fíkjur á, formælti hann, þó að ekki væri sá tími kominn að vænta mætti á því ávaxta. Mannlegur ófullkomleiki Jesú kemur einnig fram í því, að hann sagði að heimsendir væri fyrir dyrum, svo nálægur að sumir þeir sem á hann hlýddu, mundu flytjast yfir í eilífðina án þess að deyja. En þó væri varla rétt að kalla þetta falsspá. Feiknspár Jesú eru eins og forboði Opinberunarbókarinnar, þar sem segir frá ragnarökum á annarri jarðstjörnu og þá líklega einmitt þeirri sem Jesús sá í huga sér vegna sam­bandsins við föðurinn. Hefir hann svo heimfært upp á vora jörð þau ógurlegu tíðindi sem fyrir höndum voru á þeirri jarðstjörnu og farið þannig líkt og hinum franska verkfræð­ing og spámanni Cabarel, sem, eins og ég hefi minnst á hér að framan, fjarskynjar tortímingu mannkyns á annarri jarðstjörnu, en ímyndar sér, að það sé framtíð mannkynsins hér á jörðu sem hann hefir séð.

VII
Hið merkilegasta sem eftir Jesú er haft, eru hin háleitu orð 4. guðspjallsins, þar sem hann biður „föðurinn” að þeir sem trúa á hann „séu allir eitt eins og þú faðir ert í mér og ég í þér, til þess að þeir og séu í okkur” og ennfremur „til þess að þeir séu eitt eins og við erum eitt, ég í þeim og þú í mér, til þess að þeir skuli vera fullkomlega sameinaðir.”

Þessi orð má líta á sem forboða Hyperzóonkenningarinnar, eða þess skilnings, að lífið í alheimi á að verða ein heild, en þó þannig, að einstaklingarnir séu einnig fullkomlega sjálfstæðir. Þessu takmarki er náð með fullkominni samstillingu lífmyndanna; en því lengra sem komið er á þeirri leið því fullkomnara er sambandið við hina óendanlegu uppsprettu kraftarins. En að því stefnt að heimurinn verði guð almáttugur. Við þetta verður allt að miða. Hvert spor sem er eitthvað áleiðis að því takmarki, er rétt; hvert spor afleiðis, rangt. En að vér erum hér á jörðu ekki vel staddir í þessum efnum, má marka af því, hve mjög lífið hér er spillilíf og ránlíf, og þó maður manni verstur.

En það var ekki hægt að gera sér nokkra hugmynd um, hversu mikilfenglegt það hlutverk er og – svo að ég noti orð, sem á ekki alveg við – hlutskipti, sem bíður allra vor er lifum hér svo ófullkomnu lífi á útjaðri sköpunarverksins, meðan engin þekking var til á mikilleika heimsins, þar sem fjarlægðirnar eru svo miklar, að jafnvel ljósgeislinn er milljónir milljóna af árum að komast þær og stjörnusambönd sem eru hundrað þúsund milljónir sólna, eru aðeins sem öragnir miðað við hin stærri heimshverfi. Í slíkum heimi er það sem lífið á að vaxa til fullkomnunar; í slíkum heimi á guðlegt líf að ráða fullkomlega.