Björgun mannkyns

Fletta á kafla I II III IV V VI VII VIII

I
Ýmislegt hefir ótrúlegt fyrir mig komið á ævinni, eins og t.d. þetta, að ég skyldi sem byrjandi í jarðfræðirannsóknum — það var á Grænlandi — finna það sem einn af allra fremstu jarðfræðingum samtíðarinnar, prófessor T. C. Chamberlin — hann snéri sér, eins og ég, að heimsfræði síðari hluta ævinnar — hafði sagt að væri einmitt ekki að finna á því rannsóknarsvæði. (Sjá ritgerð mína í 14. bindi af Meddelelser om Grönland). Einnig er ástæða til, og þó ennþá fremur, að nefna jarðfræðirannsóknir mínar hérna á Íslandi, því að ýmislegt það sem ég hefi hér fundið, hefir verið svo með ólíkindum ólíklegt og umfram það, sem rannsóknir framúrskarandi manna gáfu ástæðu til að ætla að hér væri að finna. Og ýmislegt gæti ég nefnt úr annarri átt, þó að ég láti af auðskildum ástæðum sitja við að nefna hér, svo sem í inngangs skyni, það sem helst gæti orðið til að vekja traust á mér sem vísindamanni, og hjálpa lesendum mínum til að skilja, hve ólíklegt það er, að ég muni fara með eitthvert markleysu tal. En slíks trausts og beitingar greind­arinnar mun nú mjög við þurfa, er ég segi frá nokkrum þeim atburðum, sem mikla þýðingu hafa haft fyrir tilraun mína til að átta mig á tilverunni, og læra að meta það sem speki­menn, spámenn og vísindamenn hafa til málanna lagt svo, að til stuðnings gæti orðið slíkri tilraun.

II
Ekkert af því, sem fyrir mig hefir komið, hefir verið jafn fjarri því sem ég gat búist við að á dagana mundi drífa, eins og það sem nú skal sagt frá. Skal það tekið fram, að þegar það bar við, var ég lítið sem ekkert farinn að kynna mér dulfræðirit, og alveg áhugalaus um allan átrúnað.
Upp í mér kom, þar sem ég sat, óumræðilega undarleg og óskiljanleg tilfinning þess, að einhverja ógurlega þrekraun væri verið að vinna, án þess þó að ég vissi hvar eða hvernig. En þegar ég leit upp, sá ég álengdar eins og ljósan eða öllu heldur lýsandi blett. Og svo allt í einu stóð þar vera í manns­mynd, en munurinn þó meiri en á ljótum apa og hinum fegursta manni. Vera þessi var skínandi af tign og fegurð, svo að jafnvel guðamyndir þær sem ég hefi fegurstar séð, geta ekki vakið neina hugmynd um slíkt. Og sem ég horfði á guð­inn, frá mér numinn, lagði allt í einu breiðan, bjartan geisla af vörum hans í áttina til mín, og ég heyrði undarlega annar­lega, en óumræðilega fagra rödd sem sagði: bróðir. Dálitla stund — ég hafði vitanlega ekki hugsun á að athuga hvað lengi — stóð þessi dýrðlega vera og horfði á mig, en hvarf síðan. Ekki leið á löngu áður birtist þarna önnur vera, mjög lík þeirri sem horfið hafði, en þó svo greinilega frábrugðin, að mér gat ekki eitt augnablik komið til hugar, að það væri sama veran. Vera þessi horfði á mig um stund eins og hin fyrri, en án þess að segja nokkuð. En svo undarlega brá nú við og ótrúlega, að mér fannst þessi dýrðlega vera sem þarna stóð, vera ég sjálfur. Eftir stutta stund hvarf einnig þessi vera, en ég sat eftir, undrandi mjög, og skildi vitanlega ekkert í þessu sem fyrir mig hafði borið. Verum þessum báðum fylgdi eins og hljómur nokkur, óumræðilega fagur, minnti nokkuð á fegursta söng sem ég hefi heyrt, en bar þó langt af.

III
Það var lengi sem ég vissi ekkert hvað ég átti við þetta að gera, sem fyrir mig hafði komið. Það geymdist í huga mér, án þess nokkuð greiddist til um skilning. En eitt var það sem mér aldrei kom til hugar, og það var, að sýn þessi hefði ein­ungis verið hugarburður minn, það sem á útlendu máli er nefnt Hallucination. Mér var það frá upphafi fyllilega ljóst, að sú hugsun var vitlausari en svo, að henni væri nokkurt rúm gefandi, að þessi fegurð og tign, sem fór svo ósegjan­lega langt fram úr því sem ég hafði nokkurntíma heyrt eða séð eða hugsað mér, væri ekki annað en skynvilla ein. Og nokkru seinna kom nokkuð líkt fyrir mig, þó að verur þær sem mér þá bar fyrir augu, hefðu ekki yfir sér eins yfirgnæf­andi svip máttar og dýrðar. Það var eitt kvöld í rökkrinu, að ég lá á legubekk heima hjá mér, vakandi og með augun opin. Ég var einn í herberginu. Allt í einu kemur fram til fóta mér eins og ljósþoka og úr henni verður skýr mannsmynd. Ekki þótti mér þessi vera segja neitt, en í huga minn kom fram orðið Goethe, án þess að ég hugsaði það. Með nokkurri æfingu læra menn auðveldlega að greina slíkt. Það var eng­inn vafi á því, að mér var sent þetta orð. Ég hafði um alda­mótin lagt talsverða stund á rit þessa höfuðskálds Þjóðverja og mikla vitrings, sem einnig hafði fengist nokkuð við náttúrufræði. Einum eða tveim dögum seinna fór á sömu leið, um sama leyti dags, en mannsmyndin sem þá kom fram var ekki hin sama, og nafnið sem mér var sent var Descartes. Þessu mikli franski vitringur, er telja má einn af feðrum jarðfræðinnar, átti sama afmælisdag og ég, 31. mars; f. 1596, dó í Stokkhólmi 1650. Svo liðu enn nokkrir dagar. Þá var það einu sinni um hádegisbilið, að fyrir mig bar heilan hóp af mönnum. Var eins og þeir stæðu á hæð nokkurri og mjög bjart um þá. Þeir horfðu allir til mín, en spölkorn frá mönnum þessum stóð kona. Hún leit ekki til mín, en sneri að mér vinstri hlið, og í kringum hana bylgjaðist ljós, sem helst minnti á sumar þær myndir, sem norðurljósin geta á sig tekið. Ekki sá ég þesskonar ljós í kringum mennina á hæðinni, þó að bjart væri um þá. Þetta var áður en ég hafði nokkuð kynnt mér hugmyndir manna um það sem er nefnt ára, og áður en ég hafði skilið, eða gert nokkra tilraun til að skilja, að lífsafl konunnar er meira en mannsins. Það sem nú kom fram í huga mér var, að menn þessir væru vitringar, sem lifað hefðu hér á jörðu á ýmsum öldum og í ýmsum stöðum; en um konuna var mér ekkert „sagt“. Horfði ég á þetta um stund, og undrun mín var meiri en ég fái með orð­um lýst. Ég þóttist verða var við, að hinir framliðnu vitring­ar væru að reyna að koma einhverjum boðskap til mín, og var svo nokkra hríð, að það tókst ekki. En loks varð ég greinilega var við orðin: Sei gesegnet. Þóttist ég skilja seinna, að vitringarnir hefðu reynt að koma til mín nokkr­um orðum á íslensku, en ekki tekist, af því að íslenskt hugar­far gagnvart mér leyfði það ekki. Urðu þeir að nota þýskuna til að færa mér blessun sína. Tel ég þetta geta stafað af því, að ég hafði þá fyrir ekki löngu, áunnið mér nokkurt álit meðal þýskra vísindamanna, svo að jafnvel hafði komið til orða í helsta vísindafélagi Þýskalands — er heimspekingur­inn Leibnitz stofnaði — að styrkja rannsóknir mínar á Ís­landi á þann hátt, er gersamlega mundi breytt hafa ástæðum mínum, ef úr hefði orðið.

IV
Ég skildi það ekki þá, en ég hefi síðan glögglega skilið, vegna hvers það var, sem guðirnir og hinir framliðnu vitring­ar lögðu á sig þá óumræðilegu þrekraun sem það hefir verið að birtast mér hér í þoku fáviskunnar og fásinnisins um þau efni sem mestu varða. Það getur enginn vafi á því leikið, hvað það var, sem kom þessum furðulegu verum til að gera sér svona mikið far um að hughreysta mig og lyfta huga mínum. Því að það var óefað með þeirra tilstyrk sem ég komst síðan á hærra tind útsýnis yfir heiminn og lífið en áður hafði komist verið hér á jörðu, og fann þýðingarmeiri sannindi en áður höfðu fundin verið. Og af blessuninni sem þeir lögðu yfir mig, veitti sannarlega ekki. Því að sá sem hefir fengið það hlutskipti, að eiga að færa mannkyninu þau sannindi, sem því ríður mest á að vita, kemst í hann krappari en þeir geta ímyndað sér, sem ekki hafa reynt. Þar er ekki eingöngu við sljóleika og hluttekningarleysi að stríða.

V
Því miður varð ekki framhald slíkra atburða sem ég hefi nú nokkuð sagt af. Guðirnir og hinir framliðnu vitringar birtust mér ekki aftur. En þó varð nokkur breyting á, sem ég lærði síðan að rekja til þess, að verum þessum sem ég sá, hafði orðið auðveldara um en áður, að styðja viðleitni mína til skilnings á tilverunni. Smátt og smátt fór að greiðast úr ýmsu sem ég hafði áður skilið litið í, eða ekkert. Mér varð t. d. ljóst undirstöðueðli draumlífsins, sambandseðlið; og þá var ekki framar neitt óskiljanlegt, að geisli af eiginvitund guðsins sem hafði birst mér, gat komið fram í mínum huga, svo að mér fannst sem ég væri sjálfur þessi dýrðlega vera. Og jafnframt hætti það að vera dularfullt — sem mér að vísu hafði ekki áður verið mikið umhugsunarefni — hvernig á því gat staðið, að Jesús hafði sagt orð eins og „ég og faðir­inn erum eitt” og „þar sem þér sjáið mig sjáið þér föður­inn.” Og ekki þurfti ég framar að vera í neinum vafa um, að þetta gæti verið og væri sennilega rétt eftir haft. Að guð­inn sem fyrst birtist, hafði kallað mig bróður, kom mér þá einnig til að minnast alkunnra orða Jesú. En hinn breiði, furðulega bjarti geisli, sem til mín hafði lagt af vörum guðs­ins, varð til að beina eftirtekt minni að áður óskiljanlegum stað í Opinberun Jóhannesar, 19. kaflanum, þar sem segir frá þeim er heitir Trúr og Sannorður. „Og af hans munni gengur út biturt sverð til þess að hann slái þjóðirnar með því.” Það er eftirtektarvert, að gríska orðið, sem þarna er notað, er ekki Xifos, hið stutta og breiða sverð, heldur Hromfaia, en svo er nefnt langt sverð og mjótt. Orð Opin­berunarbókarinnar verða auðskilin, ef gert er ráð fyrir, að höfundurinn hafi séð eitthvað líka geislun þeirri sem fyrir mig bar. Dr. R. H. Charles, stórlærður guðfræðingur og höfuðprestur enskur, hefir samið mjög merkilegt tveggja binda verk um Opinberun Jóhannesar, og segir þar (I ,s. 30): „Sverðið sem fram gengur af munni mannsins sonar, á blátt áfram að tákna dómaravald hans. Listamönnunum í þjón­ustu trúarinnar hafa verið mjög mislagðar hendur, þar sem þeir túlka þessi táknrænu orð bókstaflega sem sverð er geng­ur fram af munni Krists.” En það er óhætt að segja, að þarna hefir bæði guðfræðinni og listinni mistekist, enda eru þessi orð torskilin mjög ef menn hafa ekki séð eitthvað líkt sjálfir. En hinsvegar er í því sem fyrir mig bar, fólgin afar­fróðleg bending um, að höfundur Opinberunarbókarinnar hefir ekki verið að skálda — eins og sumir lærdómsmenn hafa þó viljað halda fram — heldur reynt að segja frá því sem honum hafði vitrast. En eðlilegt er að í frásögn hans af því stórfurðulega sem fyrir hann hafði borið, yrði ekki komist hjá margvíslegum misskilningi, eins og ég hefi að nokkru skýrt í ritgerðinni „Opinberun, Völuspá og stjörnu­líffræði.”

VI
Ég gat áðan um hinn undurfagra hljóm sem fylgdi guðun­um er þeir birtust mér. Ég hefi hvergi, á þeim mörgu árum sem liðin eru síðan, séð getið um neitt í dulrænum fyrir­brigðum eða lýsingum á hinum svonefnda andaheimi, sem á þetta gæti minnt, þangað til mér barst í hendur bók Collyers og Dampiers „When We Wake.” Er sú bók mjög eftirtektarverð. Er þar sagt frá „anda” framliðins, sem Arthur nefnist og kveðst „hafa andstyggð á þessu þvaðri um andalífið” („I detest this nonsense about the spirit-life”). Og ekki trúir hann á andasvið: „I waste no time therefore on spiritual spheres, I do not believe in them”, segir hann, s. 42-3. Gefa spiritistar slíkum upplýsingum minni gaum en skyldi. Bókin er einnig stórfróðleg vegna þess, að einn af ágætustu vísindamönnum sinnar samtíðar, Sir William Crookes (1831-1917) kemur þar fram og er að reyna til að fræða um þetta sama og Arthur. Eða m. ö. o., að styðja kenningu mína um lífið eftir dauðann, sbr. grein eftir mig í Light, 2. des. 1937. Segir Crookes að hann eigi heima á jarðstjörnu þó að í öðru heimshverfi sé en þessu, og hvetur mjög til að snúa huganum að stjörnunum, eins og fleiri „andar” hafa gert á þessum síðustu tímum. En á s. 207 eru þessi orð höfð eftir honum: „Outer space on its spiritual side contains a curious, lovely light expressed by symphonic chords, like ecstatic music,” og ennfremur: „the light symphonies are like music.” Þarna er sagt að einhversstaðar í heimi, mjög langt í burtu frá oss hér á jörðu, sjáist ljós er fylgir það sem líkist unaðsfögrum söng. En í öðru riti sem ég kynntist um líkt leyti og „When We Wake”, og heitir The Book of Gerontius, er beinlínis sagt frá talandi ljósgeislum er flytji boðskap frá æðri stöðum til óæðri, alveg eins og mér virtist ljósgeislinn frá vörum guðsins flytja mér orðið „bróðir“. En sérstaklega fróðlega bendingu um að hinn fagri hljómur sem mér virtist fylgja guðunum hafi ekki verið hugarburður minn er að finna í bókinni „The Day after To­Morrow” eftir Sir Philipp Gibbs, sem ég las ekki fyr en í vor sem leið (1940); þar segir frá þeirri uppgötvun, að hver sýni­legur hlutur hafi sinn sérstaka hljóm, og finna megi, þegar þar til lagaðar tilfæringar eru við hafðar, að sumum andlit­um fylgir greinilega óskemmtilegur hljómur. (Gibbs, s. 36).

VII
Ég lauk prófi í náttúrufræði í janúar 1897 og fór síðan um vorið til Grænlands og var hálft ár í þeirri ferð. En veturinn eftir fór ég að leggja stund á heimspeki, og byrjaði á því að lesa heimspekisögu Höffdings kennara míns, hins fræga sál­fræðings. Hélt ég svo áfram úr því, að grípa í það nám. Ég sá fram á það, að ef þetta nám mitt átti að geta orðið eins vísindalegt og ég vildi, varð ég að lesa heimspekirit Grikkja og Rómverja á frummálunum, og kostaði það mig ekki all­litla fyrirhöfn, því að þó að ég hefði fengið ágætiseinkunn bæði í grísku og latínu við stúdentspróf, þá var ég orðinn ryðgaður mjög í þessum málum og þó einkum grísku; en að geta lesið það mál fyllilega sér til gagns er ekki auðsótt. Loks kom þó svo, að ég fór að geta lesið nokkurn veginn hin grísku heimspekirit. Hefir mér þótt það mikill ávinningur, og er jafnvel vongóður um að geta stuðlað að því, að fornrit þessi verði réttar metin en áður. Því að menn hafa ekki skilið til fulls ennþá, á hvaða leið hinir fornu spekingar voru, og hafa þar af leiðandi ekki haft allt það gagn af þeim sem hafa má til að færa út skilning vorn á heimi og lífi. Ég hefi t. d. ekki séð þess getið í neinni heimspekisögu, að Pyþagoras kenndi, að sálir manna og dýra kæmu frá stjörnunum (tas psykhas tón zóón apo tón astrón feresþai). Og í fullu samræmi við það, talar Plótínos um lífið sem magnan eða hleðslu líkamans. Og í ritum þessa ágæta spekings, og ævi­sögu hans eftir lærisvein hans Porfyríos, fann ég það sem varpaði mjög merkilegu ljósi yfir þetta furðulega sem fyrir mig hafði komið, og sem ég hinsvegar mundi ekki hafa getað skilið til fulls án slíkrar reynslu. Porfyríos segir frá því — s. 16 í fyrra bindi rita Plótíns, útgáfa Volkmanns, Lpz. 1883 — hversu til Rómaborgar, þar sem Plótín, um miðbik 3. aldar e. Kr. kenndi og hafði um sig hóp af lærisveinum, kom egypskur prestur eða hofgoði. Kynntist hann spekingn­um og bað hann um að mega sýna honum sína eigin fylgi­veru (daimón). Var Plótín þessa fús, og átti áköllun þessarar veru um að birtast, að fara fram í hofi sem egypsku gyðjunni Ísis hafði reist verið þar í borginni. Þann einn stað kvaðst hofgoðinn finna nægilega skíran þar í heimsborginni. Áköllunin fór nú fram, og birtist þá ekki vera vættakyns (daimón), eins og gert hafði verið ráð fyrir, heldur guð einn. Sagði þá hinn egypski, að sæll væri Plótínos, að eiga slíka fylgiveru eða leiðtoga. Stutta stund stóð guðinn við, og einskis gátu þeir spurt hann, og kennir Porfyr því um, að vinur Plótíns, sem var þarna með, hafi drepið fugla sem hann átti að gæta (líklega af þeim misskilningi, að hann ætti að fórna þeim). En fuglana mun hafa átt að nota sem miðla, til að greiða fyrir sambandi við guðinn. Miðar það til að styðja þessa tilgátu mína, að Mrs. Gillespie hefir það eftir Crookes (Light, 1939, s.343), að meginerfiðleika á sambandi við lífið á stjörnunum mætti yfirstíga með því að leggja saman lífsafl manns og dýrs („by means of animal magne­tism, using the two forces in combination — the human and animal”). Fuglarnir eru að ýmsu leyti svo miklu goðumlíkari verur en mennirnir, fullkomnari viðtæki sumrar guðlegrar geislunar, eins og lýsir sér í skyggni þeirra, sem gerir þeim mögulegt að elta vorið og sumarið um allan hnöttinn.
Eftir sýn þessa í hofi hinnar egypsku gyðju, samdi Plótín mjög merkilega ritgerð er nefnist „Um fylgiveru þá (eða leiðtoga), sem oss hefir hlotið: Peri tú eilekhotos hemas daimonos”, og er það býsna eftirtektarvert, að einungis þar og hvergi annars staðar í ritum sínum, minnist spekingurinn á, að sálir mannanna fari eftir dauðann til stjarnanna. Og er það að vísu í góðu samræmi við heimspeki Platóns (sbr. hér áður) — sem Plótín kallar hinn guðdómlega — að setja daimóninn (verndarvættina) í samband við stjörnurnar. Og nokkurn viðbótarfróðleik um þetta stórmerkilega efni, fáum vér hjá höfundi ritsins de Mysteriis, sem uppi var nokkrum áratugum seinna en Plótín, því að hann segir að „geislun frá stjörnunum veiti oss vættina”: Homós he apo tón astrón aporroia aponemei ton daimona, (de Myst. 9, 4, útg. Partheys). Hafa hinir fornu spekingar, í þessu efni verið mjög langt á undan dulrænumönnum síðari tíma, spiritist­um og öðrum. En á vísindaleiðina verður ekki komist í þess­um efnum fyrr en vér byrjum að skilja, hvernig hinn skap­andi kraftur brýst lengra og lengra út í ófullkomnunina og leitast við að koma henni á leið fullkomnunarinnar. En allt er í þessum efnum í lausu lofti meðan vér skiljum ekki samband lífsins hér á jörðu við stjörnurnar, og hvernig fullkomnari íbúar annarra stjarna eru að leitast við að auka sambandið og færa oss nær sér. Og er þó hættan mikil á auknu sambandi við hina verri staði, eins og einkar glögg­lega kemur í ljós á þessum síðustu tímum. Og verður að þessu vikið nánar síðarmeir.

VIII
Porfyríos lætur þess ekki getið, að Plótín hafi svo fundist, er honum birtist þarna í Ísishofinu, guðinn leiðtogi hans, sem sæi hann sjálfan sig. En þó hygg ég telja megi nálega víst, að svo hafi einmitt verið, eins og nú skal reynt að sýna fram á. Í 5. ritgerð hinnar 5. níundar, 8. kafla (Enneas V, v, 8) segir Plótín, að hugurinn (Nous, nús) geti séð sjálfan sig skínandi gagnvart sjálfum sér og fegri orðinn. Hygg ég lítinn vafa geta leikið á því, að þarna sé í rauninni um sömu veruna að ræða, eða svipaða, og þá sem Plótín sá í hofinu, þó að hvergi komi fram, að spekingurinn hafi gert sér þetta ljóst. Og engum vafa getur það verið undirorpið, að þar sem hann er í 8. ritgerð sömu níundar (Enn. V, viii) að lýsa fegurð hugarheimsins, þá er hann í raun réttri að lýsa lífinu á stjörnu, þar sem mjög miklu lengra er komið en hér á jörðu, og þar sem átti heima guðinn leiðtogi hans. Og vitanlega eigum vér lýsingu þessa, sem er svo stórfurðuleg, einmitt að þakka sambandi spekingsins við guðinn. En það samband var í eðli sínu náskylt því sem kom Jesú til að tala um föður­inn og guðsríki sem væri hið innra með mönnunum. En það er ekki vafasamt, hvernig þau orð beri að skilja, begar þess er gætt, að Jesú virtist sem hann sæi í huga sér, það sem var hinni guðlegu sambandsveru hans fyrir augum. Er mál þetta allt stórfróðlegt. Og fullkomin sönnun fyrir sambandi Plótíns við guðlega veru, kemur fram í upphafi ritgerðarinn­ar um „niðurför sálarinnar í líkamina” (Enn. IV, viii). En þannig kemst spekingurinn þar að orði, (og er að vísu ekki auðvelt að þýða alveg nákvæmlega rétt, og þó nokkuð af því, að ritað er af engum skilningi á aðalatriði): „Oft er það sem ég vakna til mín sjálfs úr líkamanum, verð í sjálfum mér, laus við allt annað, sé stórfurðulega fegurð. Og þá trúi ég því best, að mitt hlutskipti sé hið betra; ég lifi hinu ágæt­asta lífi, er orðinn hið sama og hið guðlega; og hafandi mína veru í því, næ ég guðlegri orku og er hafinn yfir allt annað sem hugarheimsins er. Og þegar ég eftir þessa veru í hinu guðlega hverf frá (hinum guðlega) huga og niður í rökhugs­un (logismos), þá fer ég að reyna að skilja hvernig ég hafi nú farið niðurávið, og hvernig það gat nokkurn tíma orðið, að sál mín yrði í líkamanum, slíks eðlis sem hún sýndi sig nú að vera” (þegar hún losnaði um stundar sakir úr líkam­anum).
Þetta eru fróðleg orð og gera oss vel skiljanlegt hvert hið merkilegasta í heimspeki Plótíns á rót sína að rekja. En hvergi kemur það fram í ritum spekingsins, að hann hafi skilið hvað það var í rauninni, þetta sem hann kallar að vakna til sjálfs sín. En það var það að hann sofnar og fær fyrir draumgjafa veru sem er miklu æðri en mannlegs eðlis, og þá sennilega einmitt þessi skínandi vera sem birtist hon­um í hofi hinnar egypsku gyðju, og hofgoðinn hafði sagt honum, að væri fylgivera og verndarvættur hans sjálfs og fullkomnari þó og guði líkari en slíkar verur eru vanalega. Vér verðum að vita af slíku sambandi til þess að skilja hvers vegna Platón segir (í merkilegasta riti sínu Timaios, 47 B) að heimspeki sú sem hann flytur sé svo mikils verð að betra hafi aldrei verið né muni verða enda sé hún (sér) gefin af guðun­um. Og eins að það muni vera á nokkrum rökum byggt þegar Filostratos segir (í 1. kafla rits síns um Apollóníus frá Tyana) að spekingurinn Pyþagoras hafi verið samvistum við guðina og fengið frá þeim siðfræði sína og náttúrufræði (en hún var að sumu leyti þúsundum ára á undan samtíð hans). Virðist Pyþagoras hafa orðið sambandsástands þessa aðnjótandi á enn hærra stigi en Plótínos. Og óhætt er að segja að vér getum ekki til fulls gert oss grein fyrir því hversu merkileg gríska heimspekin er fyrr en vér vitum af þessu ástandi. En engin leið var til að glöggva sig á þessu máli fullkomlega fyrr en eðli draumlífsins var uppgötvað. Getum vér þá einnig rennt grun í hver framfaraöld muni upp renna þegar fer að takast að haga svo til að draumgjafinn eða sambandsveran verði alltaf æðra eðlis. Amerískur læknir, dr. Bücke, sem í eitt skipti hafði reynt eitthvað líkt ástand þessu hefir ritað um það bók er hann nefnir Cosmic Consciousness: Alheimsvitund. Er þar að vísu of ríkt að orði kveðið, og kemur í ljós að læknirinn hefir ekki skilið hvers eðlis ástandið var.
Porfyríos segir að Plótínos hafi komist í ástand þetta 4 sinnum meðan hann dvaldi hjá honum við nám, en sjálfur kveðst hann reynt hafa einu sinni er hann var á 68. aldursári. Ég þekki þetta ástand af eigin reynd, og hefi þó aðeins fengið að reyna það einu sinni. Meðvitund mín var ákaflega miklu merkilegri og stórkostlegri en vanalega, eða nánar til­tekið, varla sambærileg. Því mér fannst nálega sem ég mundi geta allt og vita allt, og fara ógurlega niður á við þegar ég vaknaði (sbr. lýsingu Plótíns). En þegar ég hafði áttað mig á eðli draumlífsins sem varð nokkru síðar, varð mér fullkomlega ljóst, að þarna var ekki um mína eigin meðvitund að ræða, heldur hitt, að ég hafði fengið þátt meðvitund miklu æðri veru en vér mennirnir erum. Þarna var um nokkurskonar draum að ræða, en svona óvenjulegan og merkilegan af því að guð hafði orðið draumgjafi minn og þá sennilega einmitt annarhvor guðinn sem hafði birst mér, eins og áður er sagt frá. Ég þóttist vera staddur hátt upp til fjalla og í óumræðilegri birtu; en á sjónjaðri var að sjá eins og dálítinn hnoðra og þótti mér þó raunar sem hnoðri þessi væri heimurinn eins og vér mennirnir þekkjum hann, með billjónum sólna. Þótti mér sem í hnoðra þessum væri eitt­hvað meir en lítið sem laga þyrfti, en í huga mínum réði til­finning ósigrandi styrkleika, og ég var í engum vafa um það að hnoðra þessum eða hnökra á tilverunni, mundi komið verða til samræmis við fullkomleikann. Það var óneitanlega að fara niðurávið eins og Plótín segir, og það alveg óskiljan­lega, að vakna til sjálfs sín frá slíku ástandi, og hefir mér þótt það mikið mein að fá aldrei að reyna slíkt aftur öll þau ár sem síðan eru liðin. En þó veit ég vel hvað veldur. Þeirri guðlegu hjálp, sem þetta samband er, verður ekki komið fram við neinn sem ekki hefir einlægan vilja á að leita sann­leikans. En þó er það ekki nóg. Náttúrulögmál það sem ég hefi nefnt stillilögmálið, og tók að rannsaka sumarið 1914, gerir það að verkum, að enginn guð getur veitt neinum sann­leiksleitanda þá hjálp sem þyrfti, nema hann hafi nægilegt fylgi við að styðjast, nægilegt traust manna á því að það sé sannleikurinn sem hann er að flytja þeim, og að þeim sé sjálfum mjög áríðandi að verða samtaka tilrauninni til að koma fram sannleikanum. Sljóleiki mannanna gagnvart sannleikanum, hefir verið versta fyrirstaðan gegn því, að lífinu hér á jörðu gæti orðið komið í það horf sem vera þarf. Mun þetta skýrast nokkuð við það sem enn mun sagt verða.

Köflum IX.-XVII. sleppt.