Æviágrip

Helgi Pjeturss fæddist í Reykjavík 31. mars 1872. Foreldrar hans voru hjónin Pétur Pétursson (1842-1909) síðar bæjargjaldkeri í Reykjavík og Anna Sigríður Vigfúsdóttir Thorarensen píanókennari (1845-1921). Af sex börnum þeirra hjóna komust fjögur á legg og var Helgi elstur þeirra. Hin voru: Sigurður (1873-1952), Ástríður (1876-1958) og Kristín Sigríður (1880-1923).
Helgi ólst upp á heimili foreldra sinna en ekki eru miklar heimildir til um um æskuár hans. Heimili fjölskyldunnar var lengst af að Smiðjustíg 5, en um aldamótin 1900 létu þau reisa stórt hús við hlið þess gamla. Það var Smiðjustígur 5b á horni Smiðjustígs og þeirrar götu er síðar varð Hverfisgata. Árið 1903 gekk Helgi að eiga Kristínu Brandsdóttur (f. 1887) frá Hallbjarnareyri á Snæfellsnesi. Þau eignuðust fjögur börn: Pétur Hamar (1904), Önnu Sigríði (1906), Þórarinn Brand (1908) og Helgu Kristínu (1909). Rof varð á sambandi þeirra og Kristín flutti af landi brott í lok árs 1909. Það var Helga mikið áfall og gekk nærri heilsu hans um tíma. Helgi bjó að Smiðjustíg 5b til æviloka og hélt Anna dóttir hans heimili fyrir þau, en hún var ógift og barnlaus.
Með því að á vef þessum er fyrst og fremst fjallað um Helga Pjeturss sem vísindamann verður fjölskyldu hans og einkalífi ekki gerð frekari skil hér. Líklegt má telja að ævisaga hans verði skráð í fyllingu tímans.

Snemma kom í ljós að Helgi var afburða námsmaður og segir hann sjálfur í viðtali „Ég var 13 ára gamall þegar ég fór í Latínuskólann. Ég fékk fljótlega áhuga á náttúrufræði. Ég var aldrei í vafa um hvað ég ætlaðir að verða.” Og í Æviágripi (skrifað á dönsku, þýtt í bókinni Samstilling lífs og efnis í alheimi) segir hann „Þegar ég varð stúdent (1891 með 1. einkunn), hafði ég lesið þykkar bækur um náttúrufræði og þó einkum jarðfræði. En í háskólanum varð mér smám saman ljóst, undir leiðsögn framúrskarandi kennara, að lærdómur minn var ekki mikils virði, en það sem skiptir mestu máli er að æfa athyglisgáfu sína.”
Af þessum orðum er ljóst að strax á námsárunum hefur Helgi verið sér meðvitaður um hvert yrði hans sterkasta vopn við rannsóknir á náttúru Íslands sem hann stundaði af alefli frá árinu 1899 og til loka fyrsta áratugs 20. aldar. Til þess að gera grein fyrir árangri hans fer vel á því að vísa í 2. tbl. Náttúrfræðingsins, 1. júní 1942, sem tileinkað var Helga með þessum orðum:
Dr. phil. Helgi Pjeturss
Hið íslenska náttúrufræðisfélag tileinkar yður þetta hefti Náttúrufræðingsins í tilefni af sjötugsafmælinu

Jóhannes Áskelsson ritstjóri blaðsins skrifar af þessu tilefni grein sem hann nefnir Nokkur afmælisorð og segir þar „Helgi Pjeturss hafði ráðið þá gátu í jarðfræði Íslands, sem svo mörgum jarðfræðingum hafði áður reynst torráðin. Á þessari frábæru uppgötvun dr. Helga Pjeturss hvíla enn allar móbergsrannsóknir Íslands.” Niðurlag greinarinnar fer hér á eftir:
„Nú skulu ekki allar jarðfræðirannsóknir Helga Pjeturss raktar til hlítar. Til þess er ekki rúm. En drepið skal þó á þær helztu, svo lesendur Náttúrfræðingsins fái um það vitneskju, hvað eftir þennan nestor íslenskra náttúrufræðinga liggur á sviði jarðfræðirannsókna. – Hann sýndi fram á, að basaltmyndun Íslands, er að nokkrum hluta til orðin á jökultíma, en ekki, eins og áður var talið, fyrir þann tíma. Hann fann í millilögum þessa ísaldarbasalts menjar sædýra, er veittu algerlega áður óþekktar upplýsingar um loftslag og lífsskilyrði á Íslandi ísaldanna. Hann leiddi að því rök, fyrstur allra, að mikill hluti móbergsins er jökulmyndun, mikið og merkilega umbreytt. Áður var allt í þoku um myndun og aldur þessarar bergtegundar. Hann rakti pliócenu lögin á Tjörnesi miklu betur en áður hafði verið gert, og hann fann, að þau voru þykkari og voldugri en álitið var, og fróðlegri til rannsókna en menn höfðu haft hugmynd um. Áður en Helgi hóf rannsóknir sínar, var það skoðun þeirra er Ísland höfðu kannað, að grágrýtishraun væru frá því fyrir ísöld. Nú sannaði hann, að þau voru yngsti þátturinn í basaltmyndun landsins, og líklegt að þau hefðu brunnið milli ísalda. Loks hefir Helgi bent á, að stórkostlegar brotabergsmyndanir finnast víða á landinu, og fjörumörk rakti hann hærra en áður hafði verið talið að þau næðu.
Það sést á ritaskrá, er fylgir grein þessari, að flestar ritgerðir Helga Pjeturss um jarðfræði Íslands eru skrifaðar á erlendum málum. Þetta verða jarðfræðingar smáþjóðanna að gera ef verk þeirra eiga að njóta sín og metast réttilega. Ég veit ekki annað, en að starfsbræðrum hans, um víða veröld, komi öllum saman um það, að jarðfræðirannsóknir hans sýni, að þar hefir frábær vísindamaður að verki verið.
Á seinni árum ævi sinnar hefir Helgi Pjeturss, í anda hinna beztu og vitrustu spekinga leitazt við að hjálpa mönnum, að átta sig á mikilleik alheimsins. Um þau mál hefur hann ritað, sem kunnugt er, í bókum sínum Nýall (1922), Ennýall (1929) og Framnýall (1941). Þær bækur eru á fegurra máli en flest það, sem á íslensku hefur verið ritað. En þeim grun er erfitt að verjast, að þær séu skrifaðar á máli full fámennrar þjóðar til þess, að efni þeirra verði á þann hátt metið sem vert væri.”

Um eða fyrir aldamótin 1900 hóf Helgi rannsóknir á eðli svefns og drauma sem urðu undanfari kenninga hans um samhengi alls lífs og efnis í alheimi. Eða eins og Jóhannes Áskelsson orðar svo vel í grein sinni hér að ofan: „… hefir Helgi Pjeturss, í anda hinna beztu og vitrustu spekinga leitazt við að hjálpa mönnum, að átta sig á mikilleik alheimsins.”
Sjálfur taldi Helgi heimsfræðina vera sitt mikilvægasta viðfangsefni og það er markmið þessarar vefgerðar að koma helstu kenningum hans á framfæri á skilmerkilegan hátt, fyrir íslenska jafnt sem erlenda lesendur.